KFR fór létt með Árborg

KFR og Hamar komust áfram í VISA-bikar karla í knattspyrnu í dag. KFR lagði Árborg 5-3 á Hvolsvelli.

Rangæingar byrjuðu betur og komust í 3-0 snemma í fyrri hálfleik. Stefán Orlandi skoraði fyrst úr vítaspyrnu, Hjörvar Sigurðsson skoraði annað markið og Brynjólfur Þorsteinsson það þriðja. Snorri Sigurðarson og Guðmundur Ármann Böðvarsson minnkuðu muninn fyrir Árborg í 3-2 og þannig var staðan í hálfleik.

Reynir Björgvinsson sá til þess að síðari hálfleikur varð aldrei spennandi. Hann stakk varnarmenn Árborgar tvívegis af í upphafi síðari hálfleiks og skoraði í bæði skiptin. Rangæingar lágu nokkuð til baka í seinni hálfleik og reyndu skyndisóknir. Snorri Sigurðarson var aftur á ferðinni fyrir Árborg og minnkaði muninn í 5-3 en nær komust Árborgarar ekki.

Hamar vann Ými örugglega, 0-3, með mörkum frá Arnari Þórarinssyni, Atla Sigurðssyni og Ragnari Sigurjónssyni. Staðan var 0-2 í hálfleik.

Í Kórnum heimsótti Ægir Augnablik og þar var skorið úr um úrslitin í vítaspyrnukeppni. Augnablik komst í 2-0 í fyrri hálfleik en Ægi tókst að jafna á síðustu tíu mínútum leiksins. Milan Djurovic og Elfar Bragason skoruðu mörkin. Framlengingin var markalaus en í vítaspyrnukeppninni reyndist Gísli Þór Einarsson, markvörður Augnabliks, fyrrum félögum sínum í Ægi erfiður. Hann varði tvær spyrnur, Augnablik vann vítakeppnina 4-2 og samtals 6-4.

Í næstu umferð heimsækir KFR KB í Breiðholtið og Hamar fær 1. deildarlið Gróttu í heimsókn.