KFR byrjar á sigri – Stokkseyri fékk skell

Rangæingar fagna sigri. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnufélag Rangæinga og Ungmennafélag Stokkseyrar hófu keppni í hinni nýju 5. deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi.

Í 5. deildinni er leikið í tveimur riðlum, þar sem Stokkseyri er í A-riðlinum og KFR er í B-riðlinum. Síðsumars verður svo úrslitakeppni þar sem tvö efstu liðin úr hvorum riðli bítast um sæti í 4. deildinni.

KFR heimsótti Berserki/Mídas í Safamýrina í gærkvöldi. Hjörvar Sigurðsson kom Rangæingum á blað strax á 9. mínútu með marki úr vítaspyrnu eftir að brotið var á Rúnari Þorvaldssyni í vítateignum. Þórbergur Egill Yngvason skoraði svo glæsilegt skallamark á 33. mínútu eftir hornspyrnu og kom KFR í 0-2.

Berserkir/Mídas svöruðu fyrir sig á 44. mínútu og staðan var 1-2 í hálfleik og heimamenn náðu svo að jafna á 54. mínútu með marki af vítapunktinum. Allt í járnum á þessum tímapunkti en Rangæingar áttu vel útfærða sókn á 64. mínútu og úr henni skoraði Bjarni Þorvaldsson sigurmarkið, 2-3.

Hlutirnir féllu ekki eins vel fyrir Stokkseyringa sem heimsóttu Úlfana á Framvöllinn í gærkvöldi. Úlfarnir komust yfir á 2. mínútu en Þorkell Þráinsson jafnaði fyrir Stokkseyri fjórum mínútum síðar. Um miðjan fyrri hálfleikinn kom slæmur kafli hjá Stokkseyri þar sem Úlfarnir skoruðu þrjú mörk á korteri og staðan var 4-1 í hálfleik. Stokkseyringar reyndu að svara fyrir sig í seinni hálfleik en Úlfarnir nýttu sínar sóknir betur og bættu við þremur mörkum. Lokatölur 7-1.

Fyrri grein„Ánægð með baráttuna“
Næsta greinFjölskylduleiðsögn í Húsinu á safnadaginn