KFR áfram í bikarnum

KFR lagði Kóngana 0-2 í 1. umferð Borgunarbikars karla í knattspyrnu í dag. Stokkseyri, Árborg og Gnúpverjar féllu úr leik.

Rangæingar voru manni fleiri stærstan hluta leiksins eftir að leikmaður Kónganna fékk rautt spjald á 16. mínútu. Korteri síðar skoraði Þormar Elvarsson fyrir KFR og Jón Freyr Ásmundsson bætti við öðru marki á 41. mínútu. Síðari hálfleikur var markalaus svo lokatölur urðu 0-2. KFR mætir 1. deildarliði Hauka á útivelli í 2. umferð.

Stokkseyri fékk Skallagrím í heimsókn á JÁVERK-völlinn á Selfossi. Borgnesingar voru komnir í 0-3 eftir hálftíma leik og þannig stóðu leikar í hálfleik. Eyþór Gunnarsson minnkaði muninn á 55. mínútu en Skallagrímur skoraði tvívegis strax í kjölfarið og sjötta mark gestanna kom svo í uppbótartíma. Lokatölur 1-6.

Árborgurum tókst ekki að skora gegn Augnabliki í Fagralundi í Kópavogi. Augnablik komst yfir á 22. mínútu og leiddi 1-0 í hálfleik. Rothöggið kom svo á 88. mínútu leiksins og lokatölur 2-0.

Þá töpuðu Gnúpverjar 7-2 fyrir Hvíta riddaranum, en upplýsingar um markaskorara hafa ekki borist.

Á morgun kl. 13:00 mætast Hamar og Vatnaliljurnar í Fagralundi í Kópavogi.

Fyrri greinÁrni Bragason skipaður landgræðslustjóri
Næsta greinÁstgeir leikmaður ársins hjá Mílunni