KFR áfram í bikarnum – Selfoss úr leik

Emir Dokara og Albert Brynjar Ingason berjast um boltann í leik Selfoss og Kórdrengja í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnufélag Rangæinga er komið í 2. umferð Mjólkurbikars karla í knattspyrnu eftir 1-2 sigur á Ými á útivelli í dag. Selfyssingar eru hins vegar úr leik eftir tap gegn Kórdrengjum.

Í Kópavoginum komust Ýmismenn yfir strax á 11. mínútu gegn KFR en Heiðar Óli Guðmundsson jafnaði metin fyrir Rangæinga á 38. mínútu eftir hornspyrnu Helga Vals Smárasonar og staðan var 1-1 í hálfleik. Fyrirliðinn Hjörvar Sigurðsson skoraði svo sigurmark leiksins fyrir KFR strax á þriðju mínútu seinni hálfleiks aftur var það Helgi Valur sem átti stoðsendinguna, nú úr aukaspyrnu. Þar við sat, lokatölur 1-2 og KFR mun annað hvort mæta Hamri eða Vestra í 2. umferðinni.

Stórleikur 1. umferðarinnar var leikur Selfoss og Kórdrengja á Selfossvelli. Þar var hart barist í skemmtilegum leik þar sem bæði lið fengu góð færi. Það sem skildi þó á milli var „glæsilegt“ sjálfsmark Emir Dokara, varnarmanns Selfoss, á 33. mínútu. Boltinn barst fyrir markið frá hægri þar sem Dokara náði að reka hælinn í boltann en hann sveif í háum boga yfir Stefán Ágústsson í marki Selfoss, algjörlega óverjandi. Selfyssingar sóttu mikið þegar leið á leikinn og Hrvoje Tokic náði meðal annars að skora en markið var dæmt af vegna ansi tæprar rangstöðu.

Bikarinn heldur áfram á morgun en þá mætast meðal annars Hamar og Vestri, KFB og Stokkseyri og stórleikur dagsins er leikur Ægis og Uppsveita á Selfossvelli.

Fyrri greinJóhann og Halldóra gefa kost á sér
Næsta greinDagný stigahæst í endurkomuleiknum