Knattspyrnufélag Rangæinga vann gríðarlega mikilvægan útisigur gegn Spyrni á Fellavelli í Fellabæ í dag í 5. deild karla. Þar með hreiðra Rangæingar nokkuð þægilega um sig í toppsæti B-riðilsins.
KFR varð fyrir skakkaföllum strax í upphafi leiks þegar Tumi Snær Tómasson, markvörður, fór meiddur af velli á 3. mínútu. Enginn varamarkvörður var á bekknum þannig að Jón Pétur Þorvaldsson tók við hönskunum. Hann stóð sig með prýði og var valin pulsa leiksins hjá Rangæingum. Jón Pétur kom þó engum vörnum við á 29. mínútu þegar Heiðar Jónsson kom Spyrni yfir og staðan var 1-0 í hálfleik.
Seinni hálfleikurinn var fjörugur og Bjarni Þorvaldsson jafnaði metin fyrir KFR á 62. mínútu. Tíu mínútum síðar kom Þór Albertsson Spyrni aftur yfir en heimamenn misstu í kjölfarið mann af velli með rautt spjald þegar Arnór Magnússon fékk sitt annað gula spjald.
Þá voru tíu mínútur eftir af leiknum og manni fleiri gerðu Rangæingar áhlaup og uppskáru tvö mörk. Stefán Bjarki Smárason jafnaði 2-2 á 83. mínútu og í uppbótartímanum tryggði Helgi Valur Smárason KFR sigurinn með góðu marki.
Eftir átta umferðir er KFR á toppi riðilsins með 19 stig og fimm stiga forskot á RB í 2. sætinu. Spyrnir er í 3. sætinu með 11 stig og á leik til góða.