KFR á toppnum þrátt fyrir tap

Hákon Kári Einarsson skoraði fyrir KFR. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

KFR heimsótti BF 108 í toppslag 5. deildar karla í knattspyrnu á Víkingsvöllinn í kvöld. BF 108 sigraði 4-2 en KFR situr áfram í toppsæti riðilsins.

Hákon Kári Einarsson kom KFR yfir strax á 5. mínútu en BF 108 svaraði með tveimur mörkum á tveimur mínútum korteri síðar.

Staðan var 2-1 í hálfleik en snemma í seinni hálfleiknum jafnaði Stefán Bjarki Smárason fyrir KFR. Heimamenn komust aftur yfir um miðjan seinni hálfleikinn og bættu svo fjórða markinu við á 78. mínútu. Rangæingar fundu engin svör og BF 108 fagnaði sigri.

Eftir tíu umferðir er KFR í toppsæti B-riðils með 22 stig, Spyrnir er í 2. sæti með 17 stig, eins og BF 108 sem er í 3. sæti en á leik til góða.

Fyrri greinHamar enn án sigurs
Næsta greinByggt við íþróttamiðstöðina á Laugarvatni