KFK jafnaði í uppbótartíma

Ægir tapaði stigum í uppbótartíma þriðja leikinn í röð þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við KFK á heimavelli í 3. deild karla í kvöld.

Gestirnir voru sterkari í fyrri hálfleik og voru fyrri til að skora. Staðan var 0-1 í leikhléi en Ægismenn girtu sig í brók í síðari hálfleik og skoruðu tvö mörk.
Fyrra markið var sjálfsmark en það síðara skoraði Milan Djurovic. Ægisliðið hefði getað gert út um leikinn í síðari hálfleik því þeir fengu nokkur dauðafæri en inn vildi knötturinn ekki.

Staðan var 2-1 allt fram á 92. mínútu þegar KFK fékk aukaspyrnu við vítateig Ægis sem skilaði marki – stöngin inn.

Ægir hefur nú spilað fimm leiki í B-riðlinum og í öllum leikjunum hafa úrslitin ráðist í uppbótartíma. Berserkir eru efstir í riðlinum með 13 stig en eftir leik kvöldsins hafa KFK og Ægir 8 stig. Þróttur Vogum er með 7 stig og á leik til góða.

Fyrri greinLandsmót fornbílamanna sett á Selfossi
Næsta greinTvö rauð og KFR tapaði