Keppt í nýjum kaststól í fyrsta sinn

Hrólfur Geir Björgvinson og Sigurjón Ægir Ólafsson náðu hvor í sinn héraðsmeistaratitilinn. Ljósmynd/Ófeigur Leifsson

Samhliða héraðsmóti fullorðinna í frjálsum íþróttum á Selfossvelli í síðustu viku fór fram héraðsmót fatlaðra, þar sem keppt var í kastgreinum. Keppendur í fötlunarflokkum F20 og F34 mættu til leiks.

Þeir sem keppa í flokki F34 kasta sitjandi og hingað til hafa þeir keppt á HSK mótum úr hjólastól. Í vetur var útbúinn sérstakur kaststóll með góðri aðstoð nokkurra fyrirtækja og var hann formlega tekinn í notkun á mótinu í vikunni.

Ægir í kaststólnum, sem er sérsmíðaður eftir kúnstarinnar reglum. Ljósmynd/Ófeigur Leifsson

Þeir sem vígðu kastólinn formlega voru í hátíðarskapi og settu samtals fimm HSK met. Sigurjón Ægir Ólafsson varð héraðsmeistari í kringlukasti. Hann þríbætti HSK metið í kringlukasti í F34 flokki, kastaði 1 kg kringlunni lengst 8,89 metra. Hrólfur Geir Björgvinson varð héraðsmeistari í kúluvarpi en hann tvíbætti HSK metið í kúluvarpi með 4 kg kúlu, kastaði lengst 4,48 metra.

María Sigurjónsdóttir varð fjórfaldur héraðsmeistari, hún sigraði í öllum greinum mótsins í kvennaflokki F20; kúluvarpi, kringlukasti, spjótkasti og sleggjukasti. Þess má geta að í sleggjukastinu keppti María gegn systrum sínum; Huldu og Sigríði, sem skráðar eru í Ármann og kepptu sem gestir á mótinu.

María Sigurjónsdóttir varð fjórfaldur HSK-meistari. Ljósmynd/Helgi S. Haraldsson
Fyrri greinSlökkvistarfi lokið
Næsta greinThe Codfather hittir í mark