Keppendur HSK unnu þrjá bikarmeistaratitla

Fertugasta og þriðja Bikarglíma Íslands fór fram síðastliðinn laugardag í íþróttahúsi Kennaraháskólans í Reykjavík. Góð þátttaka var í mótinu og mikið um skemmtilegar glímur.

Keppendur HSK unnu þrjá bikarmeistaratitla á mótinu.

Marín Laufey Davíðsdóttir vann opinn flokk kvenna og þá varð hún í öðru sæti í +65kg flokki kvenna.

Guðrún Inga Helgadóttir varð bikarmeistari í -65 kg flokki kvenna og Jana Lind Ellertsdóttir varð í öðru sæti í sama flokki.

Jón Gunnþór Þorsteinsson varð bikarmeistari í unglingaflokki +80 kg og þar varð Guðni Elvar Björnsson annar. Jón Gunnþór varð svo þriðji í +90 kg flokki karla.