Keppendur frá 27 löndum skráðir í Hengil Ultra

Ljósmynd/Hengill Ultra

Hengill Ultra Trail, stærsta utanvegahlaup landsins, fer fram laugardaginn 7. júní næst komandi í Hveragerði. Þar koma saman bæði byrjendur og flestir öflugustu utanvegahlauparar landsins auk keppenda frá 27 þjóðlöndum og spreyta sig á vegalengdum frá 26 kílómetrum og upp í 106 kílómetrum.

Á sama tíma er mikil aðsókn í 5 og 10 kílómetra brautirnar en allar hafa þær sama upphaf og endi í hjarta Hveragerðis.

Ljósmynd/Hengill Ultra

Danska landsliðið sendir sterka sveit
Danska landsliðið í utanvegahlaupum sendir sterka sveit kvenna til þátttöku í hlaupinu. Allar fjórar hlaupakonurnar eru í fremstu röð innan utanvegahlaupa í Danmörku og munu keppa í hinum krefjandi en fallega Hengil. Þetta er í annað sinn sem Danir senda sitt besta fólk til þátttöku.

Það verður mikið um dýrðir í Hveragerði þessa helgi því ekki bara hlaupa um 1.400 hlauparar um bæinn þennan dag heldur er dagskrá fyrir öll hvort sem þau hlaupa eða ekki. Það verður sölusýning á varningi tengdum utanvega hlaupum og almennri hreyfingu í íþróttahúsinu og götugrill við endamarkið sem öll eru velkomin í. Skítamórall mætir í götugrillið um miðjan dag og dj-arnir Doctor Victor og DJ Anna Ármann halda uppi stuðinu.

Ljósmynd/Hengill Ultra

Götugrill meistaranna
Götugrilli Hengils Ultra er stýrt af Fannari Geir Ólafssyni matreiðslumeistara og hans fólki í Kjötbúrinu á Selfossi. Þar verða framreiddir gourmet hamborgarar og drykkir frá Coca Cola á Íslandi. Keppendur fá ávísun í grillið en gestir og gangandi geta einnig keypt sér veitingar og notið dagsins með keppendunum. Reist verður stórt veitingatjald við endamarkið í tengslum við Götugrillið þar sem hægt verður að njóta veitinganna.

Kynnir hlaupsins er eins og venjulega heimakonan Rakel Magnúsdóttir sem kynnt hefur hlaupið síðustu ár af mikilli snilld og alúð.

Víking eftirpartí opið öllum
Þá lýkur dagskránni um kvöldið með partýi í íþróttahúsinu þar sem Helgi Björns, Pretty Boy Tjokkó og Klara Einars koma fram ásamt Doctor Victor og DJ Önnu Ármann. Það er opið öllum og miðasala er í fullum gangi á hengillultra.is.

Búið er að loka fyrir skráningar í 53k og 106k en ennþá eru nokkur pláss laus í 5k, 10k og 26k og hægt er að skrá sig á heimasíðu hlaupsins.

Fyrri greinFræðslunetið útskrifaði 33 námsmenn
Næsta greinFínt að slökkva á símanum og vera í núinu