Kenan og Kelsey best hjá Selfyssingum

Kenan Turudija og Kelsey Wys. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var mikið um dýrðir í Hvítahúsinu á Selfossi í gærkvöldi þegar lokahóf knattspyrnudeildar Selfoss var haldið.

Kelsey Wys, markvörður bikarmeistara Selfoss, og Kenan Turudija, miðjumaður karlaliðsins voru valin bestu leikmenn sumarsins á Selfossi.

Hjá kvennaliðinu var Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir valin efnilegust, Þóra Jónsdóttir fékk framfarabikarinn og Hólmfríður Magnúsdóttir var markahæst með 8 mörk.

Karlamegin var Þormar Elvarsson valinn efnilegastur, Þór Llorens Þórðarson fékk framfarabikarinn og Hrvoje Tokic var markahæstur með 22 mörk.

Guðjónsbikararnir, sem veittir eru fyrir framlag til félagsins og jákvæðni innan vallar sem utan, komu í hlut Þóru Jónsdóttur og Adams Arnar Sveinbjörnssonar.

Í 2. flokki kvenna var Selma Friðriksdóttir valin besti leikmaðurinn, Unnur Dóra Bergsdóttir og Anna María Bergþórsdóttir voru markahæstar og Halla Helgadóttir fékk verðlaun fyrir framför og ástundun.

Í 2. flokki karla voru Aron Einarsson og Sigurður Óli Guðjónsson leikmenn ársins, Einar Ísak Friðbertsson var markakóngur og Heiðar Óli Guðmundsson og Þorvarður Hjaltason fengu verðlaun fyrir framför og ástundun.

Sjö leikmenn fengu viðurkenningu fyrir leikjafjölda. Ingi Rafn Óskarsson, Kenan Turudija, Barbára Sól Gísladóttir og Unnur Dóra Bergsdóttir fengu viðurkenningu fyrir 50 leiki með meistaraflokki Selfoss og Arnar Logi Sveinsson, Magdalena Anna Reimus og Karitas Tómasdóttir fengu viðurkenningu fyrir 100 leiki.

Hópbílafyrirtækið Guðmundur Tyrfingsson fékk viðurkenningu frá deildinni fyrir ómetanlegan stuðning í gegnum tíðina og þeir Arnar Helgi Magnússon og Guðmundur Karl Sigurdórsson fengu viðurkenningu fyrir óeigingjarnt starf í þágu knattspyrnudeildarinnar. Þá var hinn fjölhæfi Jón Karl Jónsson valinn félagi ársins.

Fyrri greinSelfoss vann upp sex marka forskot Vals
Næsta greinHólmfríður framlengir á Selfossi