Keflavík vann á flautukörfu

Þór Þorlákshöfn tapaði með minnsta mun gegn Keflavík, 93-92, þegar liðin mættust í Iceland Express-deild karla í körfubolta í Reykjanesbæ í kvöld.

Byrjun Þórsara var afleit en Keflavík komst í 16-3 þegar fjórar mínútur voru liðnar af leiknum. Staðan var 29-18 að loknum 1. leikhluta.

Þór skoraði fyrstu sjö stigin í 2. leikhluta og minnkuðu muninn í fjögur stig, 29-25. Þá tóku Keflvíkingar við sér og þeir leiddu allan 2. leikhlutann en staðan í hálfleik var 48-40.

Jafnræði var með liðunum í 3. leikhluta og munurinn hélst svipaður en staðan var 70-60 þegar síðasti fjórðungurinn hófst. Keflvíkingar negldu niður tveimur þristum í upphafi 4. leikhluta og náðu sextán stiga forskoti. Þegar fimm og hálf mínúta var eftir af leiknum var staðan 86-72 en þá kom frábær kafli hjá Þórsurum. Þeir skoruðu átján stig gegn tveimur á rúmum fjórum mínútum og komust yfir, 88-90, þegar 40 sekúndur voru eftir af leiknum.

Keflavík setti niður þrist í næstu sókn en Michael Ringgold kom Þór aftur yfir 91-92 þegar tvær sekúndur voru eftir af leiknum. Keflavík tók leikhlé og sekúndurnar tvær dugðu þeim til að skora tveggja stiga flautukörfu og fara með sigur af hólmi.

Darrin Govens var stigahæstur Þórsara með 26 stig, Guðmundur Jónsson skoraði 23 og Marco Latinovic 13 auk þess að taka 17 fráköst. Darri Hilmarsson skoraði 11 stig, Michael Ringgold 9 og Baldur og Þorsteinn Ragnarssynir voru báðir með 5 stig.