Katrín Ýr frá í allt að sjö vikur

Katrín Ýr Friðgeirsdóttir, framherji Selfossliðsins í Pepsi-deildinni í knattspyrnu, verður frá keppni næstu vikurnar eftir að hafa rifbeinsbrotnað í leiknum gegn Val á föstudagskvöld.

Katrín Ýr lenti í harkalegu samstuði við markvörð Valsliðsins undir lok fyrri hálfleiks og varð að fara af velli vegna meiðslanna. Á stuðningsmannasíðu Selfoss kemur fram að hún verði frá keppni í allt að sjö vikur vegna meiðslanna.

Katrín Ýr er mikill markaskorari sem hafði snúið aftur í lið Selfoss á miðju tímabili í fyrra eftir að hafa verið frá keppni í ár vegna krossbandaslits.

Selfoss mætir FH í deildinni í kvöld og þá ætti liðið að endurheimta miðjumanninn Melanie Adelman sem missti af leiknum gegn Val þar sem hún þurfti að fara heim til Bandaríkjanna af persónulegum ástæðum.