Katrín tryggði Selfyssingum stig í uppbótartíma

Katrín Ýr Friðgeirsdóttir tryggði Selfyssingum stig þegar hún jafnaði metin á 93. mínútu í leik KR og Selfoss í Pepsi-deildinni í kvöld. Lokatölur voru 1-1.

Selfyssingar voru mun sterkari í fyrri hálfleik og óðu í færum en inn vildi boltinn ekki. KR átti stangarskot á 6. mínútu en eftir það var fyrri hálfleikurinn eign Selfyssinga.

Staðan var 0-0 í hálfleik en strax á 5. mínútu síðari hálfleiks komust KR-ingar yfir og á næstu mínútum var KR nær því að skora og fékk m.a. góð færi eftir hornspyrnur.

Þegar leið á leikinn þyngdist sókn Selfoss á nýjan leik en markið kom ekki fyrr en á 93. mínútu.

Selfyssingar náðu sér þar í dýrmætt stig en gráta það líklega að hafa ekki nýtt færin betur í fyrri hálfleik þegar yfirburðir liðsins voru miklir.

Selfoss er ennþá í næst neðsta sæti, nú með átta stig eins og Afturelding. KR er áfram í neðsta sæti deildarinnar með þrjú stig.