Katrín með þrennu í frábærum sigri

Kvennalið Selfoss sigraði ÍBV, 3-2, í uppgjöri toppliðanna í 1. deild kvenna á Selfossvelli í kvöld.

Selfyssingar byrjuðu mun betur, mættu Eyjaliðinu hátt á vellinum og brutu allar sóknir þeirra í fæðingu. Að sama skapi hélt Selfossliðið boltanum illa og skapaði lítið svo fátt var um færi framan af leik. Selfoss hafði góð tök á leiknum fyrstu 25 mínúturnar en féllu svo aftar á völlinn og hleyptu ÍBV inn í leikinn.

Gestirnir voru fljótir að þakka fyrir þá kurteisi og á 35. mínútu kom Sóley Guðmundsdóttir þeim yfir eftir vel útfærða skyndisókn. Selfyssingar girtu sig strax í brók og á 40. mínútu átti Katrín Ýr Friðgeirsdóttir skot fyrir utan teig sem sleikti þverslána á marki ÍBV. Katrín stillti skotfótinn betur af þremur mínútum síðar þegar hún fékk boltann fyrir utan teig og lagði hann glæsilega yfir markvörð Eyjakvenna og í netið. Staðan var 1-1 í hálfleik.

Á fyrstu mínútum síðari hálfleiks slapp Guðmunda Brynja Óladóttir innfyrir Eyjavörnina en skaut hárfínt framhjá. Eftir það héldu gestirnir boltanum betur án þess þó að skapa mikið en Selfyssingar freistuðu þess að sækja hratt – sem sömuleiðis skilaði litlum árangri fyrr en undir lok leiks.

Á 72. mínútu geystist Guðmunda fram völlinn með boltann og sendi á Katrínu sem náði góðu skoti rétt fyrir utan teig svo knötturinn söng í netinu. Markið kom á mikilvægu augnabliki því skömmu áður var ÍBV nálægt því að komast yfir eftir darraðardans í vítateig Selfoss. Og Selfyssingar voru ekki hættir. Á 81. mínútu fékk Aníta Lísa Svansdóttir boltann inni í vítateig ÍBV, hún sendi út á Katrínu sem skaut í glæsilegum boga yfir markvörð Eyjaliðsins og kórónaði þar með þrennu sína.

Síðustu tíu mínútur leiksins reyndi ÍBV liðið hvað það gat að minnka muninn en Selfossvörnin hafði verið þétt allan leikinn og gaf fá færi á sér. Á 89. mínútu nýtti Kristín Erna Sigurlásdóttir sér þó glufu í vörn Selfoss og minnkaði muninn í 3-2.

Þetta er fyrsta tap ÍBV í riðlinum í sumar en Selfossliðið er áfram taplaust. Bæði lið hafa 18 stig á toppi B-riðils en Selfoss á einn leik til góða.