Katla og Einar best á Selfossi

Katla og Einar með verðlaun sín. Ljósmynd/Aðsend

Lokahóf handknattleiksdeildar Selfoss fór fram með pompi og prakt um síðastliðna helgi á Hótel Selfoss og Miðbar. Mikil gleði skein í gegn á hverju andliti, boðið var upp á góðan mat frá Riverside og Tommi Steindórs sá um að halda dagskrá.

Katla María Magnúsdóttir var valin besti leikmaður meistaraflokks kvenna og Einar Sverrisson var valinn besti leikmaður meistaraflokks karla. Þá var Hans Jörgen Ólafsson valinn besti leikmaður U-liðsins auk þess að vera markakóngur liðsins.

Katla María sópaði að sér verðlaunum, en auk þess að vera leikmaður ársins var hún einnig markadrottning og sóknarmaður ársins. Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir var valin varnarmaður ársins og Hulda Hrönn Bragadóttir var valin efnilegasti leikmaðurinn. Þá fékk Katla Björg Ómarsdóttir baráttubikarinn.

Einar Sverrisson sópaði einnig að sér verðlaunum en hann varð einnig markakóngur og var valinn sóknarmaður ársins. Sverrir Pálsson var valinn varnarmaður ársins og Jón Þórarinn Þorsteinsson var valinn efnilegasti leikmaður meistaraflokks karla. Sölvi Svavarsson fékk baráttubikarinn karlamegin.

Félagi ársins var útnefndur Jón Birgir Guðmundsson. Ekki þarf að fjölyrða um öll þau störf sem Jóndi hefur innt af hendi fyrir félagið. Stjórnarmaður til 8 ára, sjúkraþjálfari í 15 ár, sjálfboðaliði o.s.frv. Jóndi er að öðrum ólöstuðum einstaklega vel að þessu kominn.

Að lokum voru veittar viðurkenningar fyrir leikjafjölda. Hannes Höskuldsson fékk viðurkenningu fyrir 100 leiki spilaða og Ketill Heiðar Hauksson fékk viðurkenningu fyrir 100 leiki sem sjúkraþjálfari.

Allir verðlaunahafar kvöldsins. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinMikill meirihluti hlynntur breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Selfoss
Næsta greinIngi Björn ráðinn staðarhaldari á Hrafnseyri