Katharína og Martin Gerplumeistarar

Selfosskrakkarnir Martin Bjarni Guðmundsson og Katharína Sybilla Jóhannsdóttir urðu Gerplumeistarar í 3. og 4. þrepi í áhaldafimleikum á dögunum.

Martin Bjarni fékk 91,6 stig og Katharína 59,0 stig. Alls eru þrepin sex talsins en það léttasta er 6. þrep og það erfiðasta 1. þrep. Katharína vann þrepamót FSÍ í sínum aldursflokki sem haldið var í janúar með 59,0 stigum en Martin Bjarni varð í 2. sæti í samanlögðum stigum í sínum aldursflokki á því sama móti.

Með þessum árangri hafa þau unnið sér inn þátttökurétt á Íslandsmótinu 17.-18. mars þar sem keppt er óháð aldri. Um næstu helgi munu þau spila stórt hlutverk með liði sínu á bikarmóti FSÍ í áhaldafimleikum en það er liðakeppni þar sem fimm keppa á hverju áhaldi en aðeins þrír telja til stiga.

Katharína og Martin Bjarni leggja mikið á sig til að ná þessum árangri og æfa að minnsta kosti 15 klukkustundir á viku í með íþróttafélaginu Gerplu í Kópavogi.

Fyrri greinTveir slösuðust í bílveltu
Næsta greinVarð undir fiskikari – erill hjá sjúkraflutningamönnum