Kartafla í skóinn hjá Hamarsmönnum

Hamar steinlá þegar liðið heimsótti Fjölni í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Heimamenn höfðu yfirhöndina stærsta hluta leiksins og unnu stórsigur, 112-77.

Leikurinn var jafn í 1. leikhluta og staðan að honum loknum 27-23. Hamarsmönnum gekk hins vegar afleitlega í vörn og sókn í 2. leikhluta og Danero Thomas var eini leikmaður Hamars sem skoraði stig í leikhlutanum. Thomas skoraði fimmtán stig fyrir Hamar á meðan Fjölnismenn sölluðu niður 32 stigum og munurinn var því orðinn 21 stig í hálfleik, 59-38.

Það sama var uppi á teningnum í 3. leikhluta, Fjölnismenn voru sterkari og juku forskotið enn frekar, á meðan Hamri gekk illa í sókninni og vörnin var hriplek. Í síðasta fjórðungnum náði Fjölnir mest 40 stiga forskoti en lokatölur voru 112-77. Það er því ljóst að ef Hamarsmenn ná að sofna eftir þessa útreið, þá fái þeir kartöflu í skóinn.

Danero Thomas var stigahæstur hjá Hamri með 29 stig, Bjarni Rúnar Lárusson skoraði 19, Aron Freyr Eyjólfsson 8, Bragi Bjarnason 6, Emil F. Þorvaldsson 5, Snorri Þorvaldsson 4, Halldór Gunnar Jónsson 3, Stefán Halldórsson 2 og Bjartmar Halldórsson 1.