Karl sæmdur gullmerki UMFÍ

Karl Gunnlaugsson og Ragnheiður Högnadóttir, formaður framkvæmdastjórnar UMFÍ. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sjö Sunnlendingar voru heiðraðir á 100. héraðsþingi Héraðssambandsins Skarphéðins sem haldið var í félagsheimilinu Þingborg í Flóahreppi í gær.

Karl Gunnlaugsson á Varmalæk á Flúðum var sæmdur gullmerki Ungmennafélags Íslands. Karl sem er 91 árs gamall er enn að í golfinu en hann hefur æft og keppt í fjölda íþróttagreina frá unga aldri. Hann steig í pontu á þinginu, þakkaði fyrir sig og hvatti unga fólkið til dáða. Það var Ragnheiður Högnadóttir, formaður framkvæmdastjórnar UMFÍ, sem afhenti Karli merkið fyrir hönd stjórnar UMFÍ en þar að auki nældi hún starfsmerki UMFÍ í þau Gissur Jónsson, Umf. Selfoss og Hallfríði Ósk Aðalsteinsdóttir, Umf. Þjótanda, fyrir vel unnin störf í þágu íþróttahreyfingarinnar í héraðinu.

Guðríður Aadnegard formaður HSK veitti, fyrir hönd stjórnar HSK, tveimur heimamönnum úr Ungmennafélaginu Þjótanda gullmerki og silfurmerki. Aðalsteinn Sveinsson í Kolsholti var sæmdur gullmerki HSK og Fanney Ólafsdóttir á Hurðarbaki var sæmd silfurmerki sambandsins.

Þá hlutu þau María Rósa Einarsdóttir, Íþróttafélaginu Dímon og Ólafur Þórisson, Hestamannafélaginu Geysi, silfurmerki Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands en það var Hafsteinn Pálsson, stjórnarmaður í ÍSÍ, sem afhenti þeim merkin.

Gissur Jónsson, Hallfríður Ósk Aðalsteinsdóttir og Ragnheiður Högnadóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fanney Ólafsdóttir, Aðalsteinn Sveinsson og Guðríður Adnegaard, formaður HSK. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Ólafur Þórisson, María Rósa Einarsdóttir og Hafsteinn Pálsson, stjórnarmaður í ÍSÍ. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinÖlfus – atvinnulíf til framtíðar
Næsta greinHörkuslagur og Selfoss vann með einu