Karl sæmdur heiðurskrossi ÍSÍ

Karl Gunnlaugsson á Flúðum var sæmdur heiðurskrossi Íþróttasambands Íslands á 93. héraðsþingi Héraðssambandsins Skarphéðins sem haldið var í félagsheimilinu á Flúðum síðastliðinn sunnudag.

Þetta er í sjöunda sinn sem íþróttamaður innan HSK hlýtur þann heiður. Karl hefur stundað íþróttir frá tíu ára aldri, fyrstu árin stundaði hann frjálsíþróttir og var í gullaldarliði Umf. Hrunamanna um 1950. Karl hefur m.a. setið í stjórn og nefndum Umf. Hrunamanna um árabil en hann var kosinn formaður Golfklúbbsins Flúða á stofnfundi árið 1985 og gegndi þeirri stöðu í 25 ár. Hann hefur einnig verið virkur í nefndarstarfi HSK og hefur setið í fjölda íþróttanefnda hjá sambandinu.

Kjartan Lárusson, Umf. Laugdæla, var sæmdur gullmerki HSK og er hann tólfti einstaklingurinn í sögu sambandsins sem fær gullmerki. Starfsmerki UMFÍ hlutu þau Bergur Pálsson, Selfossi, Guðmunda Ólafsdóttir, Vöku og Lárus Ingi Friðfinnsson, Hamri. Silfurmerki ÍSÍ hlaut Anný Ingimarsdóttir, Samhygð.

Reikningar sambandsins voru lagðir fram og samþykktir samhljóða. Hagnaður varð á rekstri sambandsins og skuldir engar.

Guðríður Aadnegard var endurkjörin formaður en breytingar urðu á stjórn sambandsins og fór Bergur Guðmundsson frá sem ritari en í hans stað kom inn Helgi S. Haraldsson. Einnig lét Fanney Ólafsdóttir af störfum sem meðstjórnandi og í hennar stað kom Helga Kolbeinsdóttir og að lokum kom Rut Stefánsdóttir inn sem varamaður í stað Jóhannesar Óla Kjartanssonar.

Ýmis sérverðlaun voru veitt á þinginu. Íþróttafélagið Dímon var stigahæsta félagið, Umf. Baldur fékk unglingabikar HSK og knattspyrnudeild íþróttafélagsins, Hamars hlaut foreldrastarfsbikar HSK. Þá var Guðni Guðmundsson íþróttafélaginu Garpi valinn öðlingur ársins.

Samkvæmt venju fór sleifarkeppni HSK fram á þinginu og þar sigraði Sigþrúður Harðardóttir Umf. Þór. Þá var Sæmundur Steingrímsson Umf. Þór útnefndur matmaður þingsins.

Um 100 þingfulltrúar og gestir mættu á þingið og er það góð mæting því veður var slæmt á laugardeginum þegar halda átti þingið, og var því frestað til sunnudags.

Fyrri greinHöskuldur ráðinn varðstjóri sjúkraflutninga
Næsta greinDagný valin íþróttamaður HSK