Karl og Jóhannes gerðir að heiðursfélögum

Nú er vetrarstarfi Bridsfélags Hrunamanna lokið. Síðasta mót vetrarins var sveitakeppni með þátttöku sex sveita þar sem konur voru fyrirliðar allra sveitanna.

Sveit Margrétar Runólfsdóttur sigraði með 107 stig. Með henni spiluðu Gunnar Marteinsson, Karl Gunnlaugsson og Jóhannes Sigmundsson. Næst varð sveit Þóru Þórarinsdóttur með 87 stig. Með henni spiluðu Páll Árnason, V. Stefán Sævaldsson og Vilhjálmur Vilhjálmsson.

Í þriðja sæti sveit Önnu Ipsen með 76 stig. Auk Önnu voru í sveitinni þeir Garðar Olgeirsson, Ásgeir Gestsson og Guðmundur Böðvarsson.

Lokakvöldið var svo haldið á Kaffi Grund með kaffisamsæti, aðalfundi, verðlaunaafhendingu, og léttum tvímenningi.

Stjórnin var öll endurkjörin en hana skipa Pétur Skarphéðinsson formaður, Guðrún Einarsdóttir gjaldkeri og Viðar Gunngeirsson ritari.

Á fundinum voru Karl og Jóhannes gerðir að heiðursfélögum fyrir áratuga starf fyrir félagið.

Fyrri greinSelfyssingar byrja á heimavelli
Næsta greinVel heppnað kvennamót á Hellu