Karfan byrjar í kvöld

Körfuknattleiksvertíð vetrarins hér sunnanlands hefst í kvöld þegar Hamarskonur stíga út á nýja parketið í íþróttahúsinu í Hveragerði og taka á móti Val í Lengjubikarnum.

Í Lengjubikarnum er keppt í tveimur fimm liða riðlum og sigurvegari hvers riðils fer áfram í úrslitaleikinn. Mótið verður góður undirbúningur fyrir liðið fyrir baráttuna í 1. deildinni í vetur.

Leikmannahópur Hamars er svipaður og hann var undir lok síðasta keppnistímabils utan hvað Fanney Lind Guðmundsdóttir hefur skipt yfir í Fjölni og Kristrún Rut Antonsdóttir er erlendis við nám.

Hvergerðingar stefna ekki á að tefla fram erlendum leikmanni í kvennaliðinu í vetur en mikill efniviður er til staðar því meistara- og stúlknaflokkar telja um tuttugu leikmenn og koma þeir víðsvegar af Suðurlandi.

Fyrsti leikur Hamarskvenna á Íslandsmótinu verður á Ísafirði þann 7. október. Einungis eitt lið fer upp úr 1.deild í Úrvalsdeild 2013-14 og það er markmiðið Hvergerðinga að hreppa það sæti. Þrjú sunnlensk lið verða í 1. deildinni í ár en auk Hamars mæta Hekla og Laugdælir til leiks.