Karfa: Þórsarar úr leik

Þórsarar töpuðu oddaleiknum gegn Haukum í úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta í kvöld, 69-58. Leikið var á Ásvöllum. Richard Field var stigahæstur Þórsara með 14 stig.

Leikurinn var keimlíkur fyrri leikjum liðanna þar sem hart var barist. Haukar leiddu í hálfleik, 32-25 og juku forskot sitt enn frekar í upphafi síðari hálfleiks. Þórsarar náðu að klóra í bakkann í lokin en munurinn var orðinn of mikill.

Richard Field skoraði 14 stig og tók 11 fráköst, Þorsteinn Már Ragnarsson skoraði 12 stig og Magnús Pálsson 10.

Hjá Haukum var Semaj Inge stigahæstur með 18 stig. Haukar mæta Val eða Skallagrím í úrslitum um laust sæti í úrvalsdeildinni á næsta tímabili.