Karabatic ánægður með Teit

Teitur Örn Einarsson og Nikola Karabatic árið 2009. Ljósmynd/Þuríður Ingvarsdóttir

Franska goðsögnin Nikola Karabatic mætti „gömlum“ aðdáanda þegar Ísland lék gegn Frakklandi á heimsmeistaramótinu í handbolta í gærkvöldi.

Teitur Örn Einarsson hitti Karabatic í Laugardalshöllinni fyrir tíu árum síðan, þegar Teitur var 10 ára og fékk ungi aðdáandinn mynd af sér með stjörnunni. Athygli vekur að Teitur er klæddur frönsku landsliðstreyjunni á myndinni og því greinilega mikill aðdáandi Frakkanna.

Þeir hittust svo aftur í Lanxess-Arena í Köln í gærkvöldi þar sem Teitur fékk að taka á Karabatic og lét heldur betur finna fyrir sér, þó að Frakkarnir hafi sigrað að lokum.

Þuríður Ingvarsdóttir, móðir Teits, birti skemmtilega færslu á Facebook í gær eftir leik þar sem gamla myndin birtist með nýrri mynd úr leiknum í gær, í anda 10 ára áskorunarinnar sem gengur þessa dagana á samfélagsmiðlum.

Karabatic deildi færslunni Þuríðar á aðdáendasíðunni sinni og er greinilega ánægður með Teit: „Takk fyrir að deila. Guð minn góður, tíminn flýgur og í þetta skiptið óx barnið vel úr grasi.“

Fyrri grein40,2% íbúa Mýrdalshrepps eru erlendir ríkisborgarar
Næsta greinBæjarstjórnarfundir í Árborg verða í beinni