Kaposi ráðinn þjálfari Hamars

Tamas Kaposi skrifar undir hjá Hvergerðingum. Við borðið sitja einnig Hafsteinn Valdimarsson og Valdimar Hafsteinsson, formaður deildarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Tamas Kaposi var á dögunum ráðinn þjálfari úrvalsdeildarliðs Hamars í blaki en hann tekur við starfinu af Radoslaw Rybak, sem stýrði liðinu til sigurs í öllum keppnum síðastliðin tvö ár.

Kaposi er þrítugur Ungverji sem kom til Íslands fyrir tveimur árum til þess að stýra liði Völsungs á Húsavík. Þar hefur hann náð eftirtektarverðum árangri en Kaposi er sjálfur reynslumikill leikmaður sem hefur stærstan hluta ferilsins leikið í heimalandinu. Þar hefur hann meðal annars unnið ungversku deildina, bæði sem leikmaður og þjálfari.

Í tilkynningu frá Hamri segir að mikils sé vænst af nýja þjálfaranum en markið hefur verið sett hátt síðustu ár í Hveragerði. Markmið þjálfara og stjórnar er að halda góðu starfi áfram, ásamt því að efla barna og unglingastarf deildarinnar.

Fyrri greinBanaslys í Landbroti
Næsta greinStyrktarsjóður Svanhildar með sölubás á Kótelettunni