Kaflaskiptur sigurleikur Þórs

Þór Þorlákshöfn vann bardagann um Suðurland þegar liðið lagði FSu, 88-77, í 1. deild karla í körfubolta í kvöld.

Þórsarar byrjuðu leikinn mun betur enda vel studdir af Græna drekanum á pöllunum. Lætin í húsinu virtust stuða FSu liðið sem náði litlum takti framan af og gerði mörg mistök í sókninni. Þórsarar leiddu að loknum 1. leikhluta, 29-16 og staðan í hálfleik var 54-36.

Framan af síðari hálfleik virtust Þórsarar ætla að klára leikinn sannfærandi og þeir náðu mest 29 stiga forskoti í um miðjan 3. leikhluta, 71-42.

En Selfyssingar sýndu að þeir gefast ekki upp þó útlitið sé svart því þeir unnu heldur betur á undir lokin. Þeir komu sér inn í leikinn aftur með 15-2 leikkafla og breyttu stöðunni í 76-61 í upphafi 4. leikhluta. Forskot Þórs minnkaði hratt á lokakaflanum en FSu tókst ekki að brúa bilið þrátt fyrir fínan leik undir lokin. Munurinn var 11 stig þegar lokaflautan gall og lokamínúturnar urðu aldrei spennandi.

Hjá Þórsliðinu var Eric Palm atkvæðamikill og Vladimir Bulut var sterkur bæði í vörn og sókn. Hann hélt t.a.m. vel aftur af Richard Field sem skoraði þrátt fyrir það 33 stig og tók 16 fráköst. Þjálfarasonurinn Valur Valsson átti eins og félagar sínir erfitt uppdráttar framan af leik en hann sýndi hvað í honum býr í seinni hálfleik.

Þór Þorlákshöfn: Eric Palm 26 stig, Vladimir Bulut 20 stig, Philip Perre 19 stig og 9 fráköst, Hjalti Valur Þorsteinsson 10 stig, Baldur Þór Ragnarsson 6 stig, Þorsteinn Már Ragnarsson 5 stig og Bjarki Gylfason 2 stig og 8 fráköst.

FSu: Richard Field 33 stig og 16 fráköst, Valur Orri Valsson 23 stig, Arnþór Tryggvason 6 stig, Orri Jónsson 5 stig, Sæmundur Valdimarsson 4 stig, Svavar Stefánsson 3 stig, Sigurbjörn Jónsson 2 stig og Guðmundur Auðunn Gunnarsson 1 stig.

Dómarar leiksins, þeir Sigmundur Már Herbertsson og Rögnvaldur Hreiðarsson stóðu vaktina með mikilli prýði.