Selfoss tók á móti HK í úrvalsdeild karla í handbolta í gærkvöldi. HK-ingar voru sterkari í kaflaskiptum leik og unnu 29-32.
Byrjun leiksins var afleit hjá Selfyssingum en HK skoraði fyrstu fjögur mörkin. Þeir vínrauðu náðu að minnka muninn í 10-11 þegar rúmar 18 mínútur voru liðnar en HK tók þá annan sprett og staðan var 12-16 í hálfleik.
HK byrjaði seinni hálfleikinn betur og náði sex marka forskoti sem Selfyssingar ætluðu ekki að ná að vinna niður. Síðustu tíu mínútur leiksins urðu þó vendingar, heimamönnum í vil, og þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir jöfnuðu þeir 27-27.
Nær komust Selfyssingar ekki. HK skoraði tvö mörk í röð og vann að lokum þriggja marka sigur.
Tryggvi Sigurberg Traustason var markahæstur Selfyssinga með 8/6 mörk, Hákon Garri Gestsson og Elvar Elí Hallgrímsson skoruðu 4, Árni Ísleifsson og Sölvi Svavarsson 3, Haukur Páll Hallgrímsson og Anton Breki Hjaltason 2 og þeir Gunnar Kári Bragason, Jason Dagur Þórisson og Guðjón Óli Ósvaldsson skoruðu 1 mark hver.
Philipp Seidemann varði 7 skot í marki Selfoss og var með 29% markvörslu og Alexander Hrafnkelsson varði 2 skot og var með 12,5% markvörslu.
Selfyssingar eru áfram í 11. sæti deildarinnar með 5 stig en HK er í 8. sætinu með 8 stig.

