KÁ hafði betur í vatnsslagnum

Matthías Ramos Rocha hreinsar frá marki Hamars. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar tók á móti KÁ í toppbaráttu 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Aðstæður á Grýluvelli voru afleitar, völlurinn á floti en gestirnir stóðu sig betur í bleytunni og sigruðu 1-5.

KÁ fékk betri færi í fyrri hálfleik en Pétur Logi Pétursson, markvörður Hamars, hélt sínum mönnum inni í leiknum með nokkrum frábærum vörslum. Á 34. mínútu fíflaði Steinar Gunnbjörnsson mann og annan í vörn KÁ og lagði boltann á Rodrigo Depetris sem skoraði með frábæru vinstri fótar skoti.

Hamri tókst ekki að verja forskotið fram að leikhléi því Carlos Rabelo skoraði beint úr hornspyrnu á 42. mínútu og jafnaði fyrir KÁ, 1-1 í hálfleik.

Aðstæður á Grýluvelli versnuðu þegar leið á leikinn og í seinni hálfleik var miðsvæðið á floti á vallarhelmingi KÁ þannig að sóknarleikur Hamars gekk mjög erfiðlega. Gestunum gekk mun betur í sínum sóknaraðgerðum og þeir komust yfir með marki frá Filip Sakaluk á 55. mínútu eftir mistök í vörn Hamars og tíu mínútum síðar skoraði Adam Frank Grétarsson úr skyndisókn og staðan orðin 1-3.

Við þriðja mark KÁ má segja að allur vindur hafi verið úr Hamarsmönnum. KÁ menn voru mun ákveðnari og varamennirnir Pétur Gunnar Rúnarsson og Rómeó Máni Ragnarsson skoruðu báðir á lokakaflanum en mark Rómeó kom úr síðustu spyrnu leiksins í uppbótartímanum.

Sigurinn lyfti KÁ upp í 2. sæti deildarinnar, liðið er með 10 stig en Hamar er í 6. sætinu með 7 stig.

Fimmtu umferð deildarinnar lýkur á laugardaginn þegar Uppsveitir leika sinn fyrsta heimaleik en Álftanes kemur í heimsókn á Flúðir kl. 14:00 og klukkutíma síðar hefst leikur Tindastóls og Árborgar á Sauðárkróki.

Önnur úrslit í 5. umferð 4. deildarinnar:

Vængir Júpíters 3 – 2 Skallagrímur
1-0 Sigurður Agnar Arnþórsson (’5)
1-1 Ólafur Már Kristjánsson (’44)
1-2 Ólafur Bjarki Stefánsson (’46)
2-2 Aron Páll Símonarson (’56)
3-2 Aron Páll Símonarson (’67)

KFK 5 – 1 KH
1-0 Aitor Abella (’4)
2-0 Anton Ingi Sigurðarson (‘9)
3-0 Sveinn Þorkell Jónsson(sjálfsmark ’9)
4-0 Anton Ingi Sigurðarson (’38)
5-0 Hubert Kotus (’41)
5-1 Sigfús Kjalar Árnason (’61)

Fyrri greinJafntefli í roki og rigningu
Næsta greinBjörn Jóel maður mótsins