KA hafði betur á endasprettinum

Hannes Höskuldsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar eru mættir aftur í deild þeirra bestu í handboltanum og fyrsta verkefni Íslandsmótsins var leikur gegn KA í Set-höllinni Iðu í dag. Eftir jafnan leik hafði KA betur og sigraði 30-33.

Selfyssingar höfðu frumkvæðið framan af leiknum, þeir skoruðu tvö fyrstu mörkin og leiddu 9-5 um miðjan fyrri hálfleikinn. KA minnkaði muninn áður en flautað var til leikhlés en staðan var 16-15 í hálfleik.

Það var jafnt á nánast öllum tölum fyrstu tuttugu mínúturnar í seinni hálfleiknum. Í stöðunni 25-25 komu tvö mörk í röð frá KA og þeir náðu í kjölfarið fjögurra marka forskoti á lokakaflanum. Selfyssingar áttu ekki svar við því og KA fagnaði að lokum þriggja marka sigri.

Hannes Höskuldsson var markahæstur Selfyssinga með 8/1 mörk, Jason Dagur Þórisson skoraði 7, Jónas Karl Gunnlaugsson og Sölvi Svavarsson 4, Álvaro Mallols og Tryggvi Sigurberg Traustason 2 og þeir Gunnar Kári Bragason, Haukur Páll Hallgrímsson og Valdimar Örn Ingvarsson skoruðu allir 1 mark. Alexander Hrafnkelsson varði 14/1 skot í marki Selfoss og var með 30% markvörslu.

Fyrri greinHörkuleikur gegn Evrópumeisturunum
Næsta greinSláin út hjá Selfyssingum