Kæru Selfyssinga vísað frá dómi

Dómstóll HSÍ vísaði kæru handknattleiksdeildar Selfoss vegna atviks í leik Fram og ÍBV í lokaumferð Olísdeildar karla í handbolta frá dómi í gær.

Eyjamenn voru of margir inni á vellinum á lokasekúndunum og hefði með réttu átt að dæma Fram vítakast. Það var ekki gert og vann ÍBV leikinn með einu marki og tryggði sér deildarmeistaratitilinn.

Samkvæmt leikreglum IHF getur brot á leikreglum aðeins falið í sér misgerð gagnvart þátttakendum í tilteknum leik, jafnvel þótt önnur lið geti haft hagsmuni af úrslitum leiksins.

Í dómsorði segir að þar sem Selfoss sé ekki aðili að umræddum leik verði ekki fallist á það að misgert hafi verið við félagið, þótt dómarar hafi látið tiltekið atvik óátalið. Með vísan til þessa er málinu vísað frá dómstólnum þar sem kæranda skortir málskotsheimild skv. lögum HSÍ.

„Ekki er tekin afstaða í þessum úrskurði til síðara skilyrðis sama ákvæðis, þ.e. hvort kærandi hafi hagsmuni af niðurstöðu málsins,“ segir ennfremur í dómnum.

Fyrri greinVirkjunin styrkir afhendingaröryggi í Bláskógabyggð
Næsta greinSunnlensku liðin sigruðu