Jose skoraði 60 stig – Hamar og Selfoss sigruðu

Jose Medina skoraði 24 stig í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Síðustu leikirnir í 1. deild karla í körfubolta fyrir jólafrí voru spilaðir í kvöld. Selfoss og Hamar unnu í sínum leikjum en Hrunamenn töpuðu.

Hamar heimsótti Sindra á Hornafjörð í mögnuðum leik sem verður helst minnst fyrir framlag Jose Medina. Hann skoraði 60 stig í 96-101 sigri Hamars. Medina var þó aðeins með 43% skotnýtingu í leiknum en hann setti meðal annars niður þrettán þriggja stiga skot.

Hamar tók forystuna í 1. leikhluta og staðan var 47-55 í hálfleik en Sindramenn svöruðu fyrir sig í 3. leikhluta og komust yfir 61-60. Fjórði leikhluti var æsispennandi en Hamarsmenn voru sterkari á lokamínútunum og unnu góðan sigur.

Næstur Jose Aldana í stigaskori var Elías Bjarki Pálsson sem skoraði 15 stig og Ragnar Nathanaelsson var sömuleiðis sterkur með 8 stig og 20 fráköst.

Selfyssingar sterkari á Skaganum
Selfyssingar heimsóttu ÍA á Akranes. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann, Skagamenn byrjuðu betur en Selfoss komst yfir fyrir hálfleik, 37-42. Frábær byrjun Selfyssinga í seinni hálfleik lagði grunninn að sigrinum, ÍA sótti að þeim í lokin en Selfoss kláraði leikinn vel og sigraði 79-86. Gerald Robinson átti stórleik fyrir Selfoss, skoraði 31 stig og tók 18 fráköst.

Hrunamenn náðu ekki flugi þegar Fjölnir kom í heimsókn á Flúðir. Eftir jafnan 1. leikhluta tóku Fjölnismenn af skarið og leiddu 37-51 í hálfleik. Þriðji leikhluti var í járnum en Fjölnir kláraði leikinn af öryggi í þeim fjórða og lokatölur urðu 78-101. Ahmad Gilbert var stigahæstur Hrunamanna með 21 stig og 13 fráköst.

Staðan í deildinni er þannig að Hamar er í 2. sæti með 18 stig, Selfoss í 4. sæti með 14 stig og Hrunamenn í 6. sæti með 12 stig. Keppni í 1. deildinni hefst aftur á þrettándanum og þá eiga öll sunnlensku liðin heimaleik. Stórleikur umferðarinnar er leikur Selfoss og Sindra í Gjánni.

Tölfræði Hamars: Jose Medina 60, Elías Bjarki Pálsson 15, Ragnar Nathanaelsson 8/20 fráköst, Daði Berg Grétarsson 6/10 fráköst, Mirza Sarajlija 6/7 fráköst/5 stoðsendingar, Alfonso Birgir Gomez 6, Daníel Sigmar Kristjánsson 5 fráköst.

Tölfræði Selfoss: Gerald Robinson 31/18 fráköst, Kennedy Aigbogun 15/9 fráköst, Ísak Júlíus Perdue 14/4 fráköst/5 stoðsendingar, Ísar Freyr Jónasson 10/4 fráköst, Styrmir Jónasson 8/5 fráköst, Birkir Hrafn Eyþórsson 5, Arnaldur Grímsson 3/5 fráköst.

Tölfræði Hrunamanna: Ahmad Gilbert 21/13 fráköst, Samuel Burt 18/6 fráköst, Óðinn Freyr Árnason 12, Eyþór Orri Árnason 11, Friðrik Heiðar Vignisson 10, Haukur Hreinsson 3, Hringur Karlsson 2, Kristófer Tjörvi Einarsson 1.

Fyrri greinBikardraumurinn fokinn út í veður og vind
Næsta greinHellisheiði og Þrengslin lokuð