Jørgensen bjargaði stigi fyrir Selfoss

Idun-Kristine Jørgensen varði víti í upphafi leiks. Ljósmynd: Hafliði Breiðfjörð/fotbolti.net

Selfoss og Tindastóll gerðu markalaust jafntefli í Bestu deild kvenna í knattspyrnu á Sauðárkróki í dag í stórskemmtilegum leik.

Þrátt fyrir markaleysið var leikurinn galopinn og þegar leið á hann var ljóst að bæði lið ætluðu að selja sig dýrt. Baráttan var allsráðandi um allan völl en mörkin létu heldur betur á sér standa.

Strax á 3. mínútu fékk Tindastóll vítaspyrnu fyrir mjög óljósar sakir en Idun-Kristine Jørgensen gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna. Í kjölfarið fengu bæði lið dauðafæri og bæði lið voru hársbreidd frá því að skora sjálfsmark.

Á 33. mínútu slapp framherji Stólanna ein í gegn en Jørgensen varði frábærlega frá henni og fjórum mínútum síðar fékk Bergrós Ásgeirsdóttir besta færi leiksins þegar hún slapp innfyrir vörn Tindastóls og framhjá markverðinum en skaut í stöngina.

Seinni hálfleikurinn var mun rólegri en bæði lið áttu góðar sóknir og vantaði herslumuninn að koma knettinum í netið.

Úrslitin breyta sætaskipan liðanna ekki, Selfoss er áfram á botninum, nú með 11 stig en Tindastóll er í 7. sæti með 15 stig.

Fyrri greinMikið þrumuveður á Suðurlandi – slydda í Þorlákshöfn
Næsta greinSkallamark við Skutulsfjörð dugði ekki til