Jón Þórarinn og Carlos verðlaunaðir

Jón Þórarinn með verðlaun sín. Ljósmynd/HSÍ

Uppskeruhátíð Handknattleikssambands Íslands fór fram í höfuðstöðvum Símans í dag en þar voru veitt verðlaun til þeirra sem þótt hafa skarað fram úr með sinni frammistöðu á liðnu keppnistímabili.

Þjálfarar og leikmenn liðanna í deildunum kusu bestu leikmennina að lokinni deildarkeppninni og komu tvenn verðlaun í hlut Selfyssinga.

Í 1. deild karla var Jón Þórarinn Þorsteinsson, markvörður Selfoss, kosinn besti markmaðurinn og Carlos Martin Santos var kosinn besti þjálfarinn. Carlos verður áfram í brúnni á Selfossi á næstu leiktíð en Jón Þórarinn hefur samið við FH.

Þá má geta þess að Ída Bjarklind Gunnarsdóttir, leikmaður Víkings, var valin besti leikmaðurinn í 1. deild kvenna. Eins og sunnlenska.is greindi frá á dögunum mun Ída snúa aftur í heimahagana fyrir næsta tímabil og leika með Selfossliðinu í úrvalsdeildinni.

Atli Kristinsson, aðstoðarþjálfari, tók við verðlaununum fyrir hönd Carlosar. Með honum á myndinni er Bergrós Guðmundsdóttir, leikmaður Þórs/KA, sem valin var efnilegasti leikmaður 1. deildar kvenna og besti sóknarmaðurinn. Hún tók við þjálfaraverðlaununum fyrir hönd Jónatans Magnússonar, þjálfara kvennaliðs Þórs/KA. Ljósmynd/HSÍ
Selfyssingurinn Ída Bjarklind Magnúsdóttir, leikmaður Víkings, var valin besti leikmaður 1. deildar kvenna. Ljósmynd/HSÍ
Fyrri greinÁrborg missteig sig heima
Næsta greinSunnlenskt hey fyrir íslensku hrossin á HM