Jón Örn og Haukur tilnefndir

Torfærukapparnir Jón Örn Ingileifsson og Haukur Þorvaldsson eru í hópi sex ökumanna sem tilnefndir eru sem akstursíþróttamenn ársins 2010.

Lokahóf Akstursíþróttanefndar ÍSÍ/LÍA verður haldið á Hótel Selfossi á laugardagskvöld og er hápunktur kvöldsins útnefning á Akstursíþróttamanni ársins.

Selfyssingurinn Haukur Þorvaldsson keppir fyrir Bílaklúbb Akureyrar en hann mætti í sína fyrstu torfærukeppni á Akureyri árið 2008. Fyrir þann tíma hafði hann keppt í nokkur ár í motocrossi og enduro. Á sínu fyrsta ári í torfæru varð hann þriðji til meistara en kom sterkur til leiks árið 2009 þar sem hann sigraði sína fyrstu keppni og háði harða baráttu um
Íslandsmeistaratitilinn en endaði að lokum í 2. sæti einungis einu stigi á eftir þáverandi meistara. Haukur náði jafnframt 2. sæti í Íslandsmótinu í sandspyrnu 2009. Árið 2010 var svo komið að Hauki fyrir alvöru en hann vann fyrstu þrjár keppnir sumarsins og náði svo að tryggja sér Íslandsmeistaratitil í flokki götubíla á Akureyri þrátt fyrir að enn væri ein umferð af mótinu eftir. Í lokamóti sumarsins mætti hann svo á bíl bróðir síns í sérútbúna flokkinn þar sem hann náði 3. sæti í frumraun sinni þar.

Jón Örn Ingileifsson frá Svínavatni keppir einnig fyrir Bílaklúbb Akureyrar. Jón byrjaði að fikta við akstursíþróttir árið 2006 en þá tók hann þátt í Olís-Götuspyrnunni á Bíladögum og ári síðar keppti hann þar einnig í Drifti. Það var svo árið 2008 sem torfæru áhuginn fékk að blómstra en þá mætti Jón til leiks í sína fyrstu torfærukeppni. Hann þurfti ekki að bíða lengi eftir góðum árangri því Jón sigraði strax í sinni annari keppni þrátt fyrir að hafa smellt sér beint í sérútbúna flokkinn í torfærunni. Á fyrsta ári fór hann einnig í víking til Noregs og
náði að sigra eina umferð í Noregsmótinu. Jón Örn var kjörinn nýliði ársins í torfærunni árið 2008 á lokahófi Akstursíþróttanefndar ÍSÍ. Árið 2009 sigraði Jón Örn fyrstu FIA-NEZ torfærukeppnina og náði jafnframt 2. sæti í Íslandsmótinu og 3. sæti í Norðulandamótinu. Árið 2010 tryggði Jón Örn sér loks Íslandsmeistaratitil í torfærunni eftir sigur í fjórum af fimm umferðum.

Auk þeirra Jóns Arnar og Hauks eru tilnefnd Ásta Sigurðardóttir aðstoðarökumaður í rallakstri, Örn Ingólfsson kvartmílukappi, Björgvin Ólafsson spyrnukempa og Jón Bjarni Hrólfsson rallökumaður.