Jón Örn og Haukur sigruðu

Jón Örn Ingileifsson og Haukur Þorvaldsson sigruðu sína flokka í 1. umferð Íslandsmótsins í torfæruakstri sem fram fór í Kollafirði í dag.

Jón Örn ók Kórdrengnum áfallalítið í gegnum þrautirnar og leiddi keppnina allan tímann. Jóhann Rúnarsson varð þriðji á Trúðnum og Íslandsmeistarinn Hafsteinn Þorvaldsson fimmti á Torfunni. Hafsteinn var í 2. sæti áður en drapst á Torfunni í miðri tímabraut og náði hann ekki að ljúka henni. Hann gafst þó ekki upp þegjandi og hljóðalaust heldur tók vel á því og velti tvívegis í næstu brautum.

Benedikt Sigfússon ók Hlunknum í 6. sæti og var síðasti Sunnlendingurinn til að ná í stig. Björn Bragi Sævarsson varð níundi og Róbert Agnarsson tólfti.

Haukur leiddi keppnina í götubílaflokknum frá upphafi og náði góðri forystu snemma dags. Hann gerði smávægileg mistök í tímabrautinni og braut svo öxul í síðustu braut. Það kom ekki að sök því forskot hans var gott og hann lauk keppni 30 stigum á undan Steingrími Bjarnasyni. Ívar Guðmundsson rak lestina í sinni fyrstu keppni en hann glímdi við vélavandræði auk þess sem hann velti Kölska í síðustu brautinni.

Staðan í Íslandsmótinu:
Sérútbúnir:
1. Jón Örn Ingileifsson – 10 stig
2. Guðlaugur Sindri Helgason – 8 stig
3. Jóhann Rúnarsson – 6 stig
4. Ólafur Bragi Jónsson – 5 stig
5. Hafsteinn Þorvaldsson – 4 stig
6. Benedikt Helgi Sigfússon – 3 stig
7. Jóhann Birgir Magnússon – 2 stig
8. Bjarki Reynisson – 1 stig

Götubílar:
1. Haukur Þorvaldsson – 10 stig
2. Steingrímur Bjarnason – 8 stig
3. Sigurður Þór Jónsson – 6 stig
4. Hlynur B. Sigurðsson – 5 stig
5. Magnús Sigurðsson – 4 stig
6. Ívar Guðmundsson – 3 stig