Jón Örn og Haukur með fullt hús

Jón Örn Ingileifsson og Haukur Þorvaldsson sigruðu sína flokka á Hellutorfærunni í dag. Mótið er 1. umferð heimsmeistaramótsins og 2. umferð Íslandsmótsins.

Sigur Jóns var öruggur, hann fékk 1880 stig en Benedikt Helgi Sigfússon kom næstur með 1393 stig.

Selfyssingar áttu fimm efstu sætin því Björn Bragi Sævarsson varð þriðji, Jóhann Rúnarsson fjórði og Hafsteinn Þorvaldsson fimmti. Hafsteinn Þorvaldsson sprengdi vélina í Torfunni í næst síðustu braut og verður að öllum líkindum ekki með í sunnudagskeppninni vegna þessa.

Síðustu stigasætunum náðu Leó Viðar Björnsson, Ólafur Bragi Jónsson og Daníel Ingimundarson. Róbert Agnarsson varð níundi á heimasætunni.

Haukur Þorvaldsson sigraði í götubílaflokki og leiðir Íslandsmótið með fullt hús stiga, líkt og Jón Örn í sérútbúna flokknum. Stefán Bjarnhéðinsson varð annar og Guðni Jónsson þriðji. Ívar Guðmundsson glímdi við vélarvandamál í Kölska og komst ekki af stað í morgun.

Aftur er keppt á morgun kl. 13 en sú keppni er 2. umferð heimsmeistaramótsins og 3. umferð Íslandsmótsins.

Staðan í Íslandsmótinu að loknum tveimur umferðum:

Sérútbúnir:
1. Jón Örn Ingileifsson – 20 stig
2. Benedikt Helgi Sigfússon – 11 stig
3. Jóhann Rúnarsson – 11 stig
4. Guðlaugur Sindri Helgason – 8 stig
5. Hafsteinn Þorvaldsson – 8 stig
6. Ólafur Bragi Jónsson – 7 stig
7. Björn Bragi Sævarsson – 6 stig
8. Leó Viðar Björnsson – 3 stig
9. Jóhann Birgir Magnússon – 2 stig
10. Bjarki Reynisson – 1 stig
11. Daníel Ingimundarson – 1 stig

Götubílar:
1. Haukur Þorvaldsson – 20 stig
2. Steingrímur Bjarnason – 12 stig
3. Hlynur B. Sigurðsson – 10 stig
4. Sigurður Þór Jónsson – 9 stig
5. Stefán Bjarnhéðinsson – 8 stig
6. Magnús Sigurðsson – 6 stig
7. Guðni Jónsson – 6 stig
8. Ívar Guðmundsson – 4 stig