Jón Jónsson sæmdur gullmerki HSK

Jón Jónsson, fyrrverandi formaður Héraðssambandsins Skarphéðins, var sæmdur gullmerki sambandsins á 95. héraðsþingi HSK sem haldið er í Hveragerði í dag.

Jón var um langt skeið driffjöður í starfi Umf. Ingólfs í Holtum. Árið 1982 var hann kjörinn í varastjórn HSK og árið 1988 tók hann við gjaldkerastöðu sambandsins. Hann var svo kosinn formaður árið 1991 og gegndi því embætti í fjögur ár. Eftir að hann hætti í stjórn HSK hefur hann tekið þátt í störfum Umf. Heklu og Hestamannafélagsins Geysis auk þess að starfa á mótum sambandsins.

Hafsteinn Pálsson, frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, steig í pontu og afhenti þremur Skarphéðinsmönnum heiðursmerki sambandsins fyrir hönd framkvæmdastjórnar ÍSÍ. Rut Stefánsdóttir, Hestamannafélaginu Sleipni og Baldur Gauti Tryggvason, Umf. Þjótanda, voru sæmd silfurmerki ÍSÍ. Þau eru bæði stjórnarmenn í HSK og hafa verið öflug í starfi sinna félaga á síðustu árum. Þá var Guðríður Aadnegard, formaður HSK, sæmd gullmerki ÍSÍ. Guðríður hefur um árabil verið formaður HSK og áður formaður Íþróttafélagsins Hamars.

Ungmennafélag Íslands sæmdi svo þrjá Skarphéðinsmenn starfsmerki UMFÍ en Ragnheiður Högnadóttir og Örn Guðnason, stjórnarfólk í UMFÍ, afhenti þau. María Rósa Einarsdóttir, Íþróttafélaginu Dímon, Valdimar Hafsteinsson, Íþróttafélaginu Hamri og Olga Bjarnadóttir, Ungmennafélagi Selfoss, fengu starfsmerki en öll hafa þau verið öflugir stjórnar- og félagsmenn og sinnt fjölbreyttum störfum á undanförnum árum í sínum félögum og innan HSK.


Hafsteinn Pálsson frá ÍSÍ nældi heiðursmerki í Guðríði, Rut og Baldur Gauta. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


(F.v.) Örn Guðnason, varaformaður UMFÍ, María Rósa, Valdimar, Olga og Ragnheiður Högnadóttir, stjórnarkona í UMFÍ. sunnlenska.is/Guðmundur Karl