Jón Daði til Millwall

Jón Daði Böðvarsson á ferðinni með íslenska landsliðinu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingurinn knái, Jón Daði Böðvarsson, hefur gengið í raðir Millwall í Championship-deildinni á Englandi. Jón Daði lék með Reading undanfarin tvö ár en flytur nú til Lundúna.

Jón Daði, sem er 27 ára, var mikið meiddur á síðasta tímabili en hann skoraði þrátt fyrir það 7 mörk í 20 leikjum fyrir Reading. Þar áður var Jón Daði hjá Wolves en hann er nú að fara í sitt fjórða tímabil í Championship deildinni.

„Ég hef vitað af áhuga Millwall í þónokkurn tíma og er mjög ánægður með að þetta sé loksins frágengið. Ég er spenntur fyrir því að mæta í nýju vinnuna og hitta strákana. Það eru spennandi tímar framundan hjá klúbbnum og sterkir leikmenn að koma inn. Mér líkar við stefnu félagsins og það er mikill metnaður í gangi fyrir næstu leiktíð og framtíðinni. Þetta er umhverfið sem ég vil vera í og ég held að þetta félag henti mér og mínum leikstíl,“ segir Jón Daði á heimasíðu Millwall.

Fyrri greinSveitarstjórnin vill svifryksmæli við Skaftá
Næsta greinTokic áfram á Selfossi