Selfoss vann frábæran 3-0 sigur á HK í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Liðin eru að berjast á sitthvorum enda töflunnar, HK í toppbaráttu en Selfoss í botnbaráttu. Selfyssingar voru viljugri í kvöld og lönduðu sanngjörnum sigri.
Leikurinn var í járnum framan af fyrri hálfleik en Aron Fannar Birgisson kom Selfyssingum yfir á 20. mínútu með skoti af stuttu færi eftir langt innkast. Markið gaf Selfyssingum aukinn kraft en mörkin urðu ekki fleiri í fyrri hálfleik og staðan var 1-0 í leikhléi.
HK byrjaði betur í seinni hálfleiknum en fengu mark í andlitið á 62. mínútu. Eftir hornspyrnu skallaði Jón Daði Böðvarsson boltann til Raúl Tanque sem skoraði af öryggi.
Jón Daði var aðeins búinn að vera inni á vellinum í fjórar mínútur þegar þetta gerðist, en hann kom inná í sínum fyrsta heimaleik á Selfossvelli í þrettán ár.
Og framherjinn var ekki hættur. Selfoss fékk vítaspyrnu á 78. mínútu eftir að Þorsteinn Aron Antonsson handlék boltann inni í vítateig á sínum gamla heimavelli. Jón Daði fór á punktinn og skoraði af öryggi. Þriðja mark Selfoss dró kraftinn úr HK sem átti þó einhver færi en Robert Blakala var gríðarlega öruggur í öllum aðgerðum sínum í marki Selfoss.
Selfoss er áfram í 9. sæti deildarinnar, nú með 16 stig, fjórum stigum fyrir ofan fallsæti. HK er í 4. sæti með 30 stig.

