Jón Daði og Guðmunda íþróttafólk ársins

Knattspyrnufólkið Guðmunda Óladóttir og Jón Daði Böðvarsson úr Umf. Selfoss voru í kvöld útnefnd íþróttakarl og íþróttakona Sveitarfélagsins Árborgar.

Verðlaunin voru veitt á uppskeruhátíð Íþrótta- og tómstundanefndar Árborgar í kvöld. Þar voru einnig fjölmargir meistarar á landsvísu verðlaunaðir auk þess sem veittir voru styrkir úr afrekssjóðum íþróttafélaganna.

Guðmunda og Jón Daði voru bæði lykilmenn í liðum Selfoss sem urðu í 2. sæti 1. deildanna í sumar tryggðu sér sæti í Pepsi-deild karla og kvenna á næsta keppnistímabili.

Guðmunda æfði með A-landsliði Íslands í fyrsta sinn auk þess sem hún lék með U17 og U19 ára liði Íslands. Á þessu ári jafnaði hún leikjamet U17 ára liðsins en hún hefur spilað 18 leiki og skorað 13 mörk með liðinu.

Jón Daði átti frábært ár sem hann hóf með lánstíma hjá AGF í Danmörku. Hann lék frábærlega í liði Selfoss í 1. deildinni í sumar og var valinn efnilegasti leikmaður deildarinnar af þjálfurum og leikmönnum hennar. Í október var Jón Daði í fyrsta sinn valinn í U21 árs landslið Íslands en hann hefur einnig leikið með U19 ára landsliðinu.

Tuttugu og einn íþróttamaður var tilnefndur í kjörinu, tíu konur og ellefu karlar. Fimleikakonan Helga Hjartardóttir varð í 3. sæti hjá konunum með 67 stig, frjálsíþróttakonan Fjóla Signý Hannesdóttir varð í 2. sæti með 143 stig og Guðmunda sigraði með 211 stig og vann þar með titilinn annað árið í röð.

Hjá körlunum varð kylfingurinn Hlynur Geir Hjartarson, Golfklúbbi Selfoss, þriðji með 78 stig, Sigursteinn Sumarliðason, hestaíþróttamaður úr Sleipni, varð annar með 81 stig og Jón Daði sigraði með yfirburðum með 170 stig.

Fjöldi íþróttamanna var verðlaunaður í kvöld fyrir góðan árangur á árinu. Þar voru meðal annars 28 einstaklingar eða lið úr sveitarfélaginu sem unnu ennþá fleiri Norðurlanda-, Íslands-, bikar- og deildarmeistaratitla, allt frá yngri flokkum upp í meistaraflokka.

Þá fékk knattspyrnudeild Umf. Selfoss hvatningarverðlaun Árborgar í ár fyrir gott barna- og unglingastarf á liðnum árum. Félagið hefur komið upp sterkum liðum í yngri flokkum sem skilar sér í auknum flokki unglingalandsliðsmanna.

Körfuknattleiksfélag FSu fékk 700 þúsund króna fjárstyrk frá sveitarfélaginu fyrir að ná gæðastimplinum Fyrirmyndarfélag ÍSÍ á árinu.

Þá voru veittir styrkir úr afreks- og styrktarsjóðum Umf. Selfoss, Íþróttafélagsins Suðra og KFSu. Þar fengu sex íþróttamenn úr Selfossi 100 þúsund króna styrk hver en alls var úthlutað 1.250 þúsund krónum úr sjóðnum. Íþróttafélagið Suðri styrkti fjóra Íslandsmeistara úr sínum röðum og KFSu tvo unglingalandsliðsmenn auk þess sem félagið nýtti sinn sjóð til að bjóða upp á ókeypis æfingar í minnibolta.

hvatningarverdlaunITA2011gk_828118437.jpg
Óskar Sigurðsson, formaður knattspyrnudeildar Umf. Selfoss, tók við Hvatningarverðlaunum Árborgar úr hendi Söndru Dísar Hafþórsdóttur. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinLjósleiðari Gagnaveitunnar í sundur
Næsta greinOlga Bjarnadóttir Sunnlendingur ársins