Jón Daði kallaður inn í A-landsliðið

Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson hefur verið kallaður inn í landsliðshóp Íslands í knattspyrnu sem mætir Andorra í vináttuleik ytra á miðvikudag.

Alfreð Finnbogason, Gylfi Þór Sigurðsson og Ragnar Sigurðsson eiga allir við meiðsli að stríða og hafa dregið sig úr landsliðshópnum en Lars Lagerbäck, þjálfari íslenska liðsins, hefur kallað á Jón Daða og Stjörnumanninn Garðar Jóhannsson, sem koma til móts við hópinn á morgun.

Jón Daði var staddur úti í Svíþjóð þegar kallið kom, þar sem hann var til reynslu hjá Djurgården. Hann er eftirsóttur af liðum í Skandinavíu en Silkeborg og Start hafa falast eftir kröftum hans auk þess sem hann hefur æft með Viking og Djurgården.

Þetta er í fyrsta sinn sem hann er valinn í A-landsliðið en hann á landsleiki að baki fyrir U21, U19 landslið Íslands.

Fyrri greinFSu þokast upp töfluna
Næsta greinÞór tapaði í tvíframlengdum leik