Jón Daði efnilegastur í 1. deildinni

Þjálfarar og fyrirliðar liðanna í 1. deild karla í knattspyrnu völdu Selfyssinginn Jón Daða Böðvarsson efnilegasta leikmann deildarinnar. Jón Daði og Babacar Sarr eru í liði ársins.

Jón Daði var einn besti leikmaður Selfyssinga í Pepsi-deildinni í fyrra og eftir að hafa verið á láni hjá AGF í Danmörku í vetur sló hann í gegn í 1. deildinni í sumar. Jón Daði var mjög mikilvægur í sóknarleik Selfyssinga en hann skoraði sjö mörk í sumar og lagði upp ennþá fleiri.

Jón Daði var atkvæðahæstur í vali á liði ársins en hann fékk 19 atkvæði af 22 mögulegum. Jón Daði fékk einnig 19 atkvæði í vali á efnilegasta leikmanninum.

Selfyssingar áttu flesta leikmenn sem fengu atkvæði í lið ársins eða tíu talsins. Jón Daði og Babacar eru á miðjunni í liðinu en á varamannabekkinn komust þeir Stefán Ragnar Guðlaugsson og Viðar Örn Kjartansson.

Frétt fotbolti.net

Fyrri greinTorfajökulssvæðið á heimsminjaskrá
Næsta greinVann silfur í nýsköpunarkeppni grunnskóla