Jón Daði æfir í Stavangri

Knattspyrnumaðurinn Jón Daði Böðvarsson fór til Noregs í gær þar sem hann mun æfa með liði Viking í Stavangri um vikutíma.

Jón Daði fór til Danmerkur á dögunum og æfði með Silkeborg og að lokinni dvölinni í Noregi er hugsanlegt að hann fari til reynslu í eina viku hjá Djurgården í Svíþjóð. Þá er vitað að norska liðið Start hefur áhuga á leikmanninum sem valinn var efnilegasti leikmaður Pepsi-deildarinnar í sumar.

„Þetta lítur mjög vel út hérna hjá Viking. Ég skoðaði aðstöðuna hjá félaginu í gær og tók svo rólega æfingu í dag með leikmönnum sem spiluðu lítið í síðasta leik. Fyrsta aðalliðsæfingin er á morgun,“ sagði Jón Daði í samtali við sunnlenska.is.

Hann var ánægður með dvölina hjá Silkeborg á dögunum og samkvæmt heimildum sunnlenska.is hefur félagið áhuga á því að semja við Jón. „Silkeborg er virkilega fínn og flottur klúbbur og mjög spennandi kostur fyrir mig. Þetta er allt opið ennþá og það eru spennandi tímar framundan,“ sagði Jón Daði ennfremur.

Fyrri greinRúmfatalagerinn opnar á Selfossi
Næsta greinGuðrún býður sig fram í 2.-3. sæti