Jón Daði til reynslu hjá AGF

Knattspyrnumaðurinn efnilegi, Jón Daði Böðvarsson, heldur á sunnudag til Danmerkur þar sem hann verður á reynslu hjá danska 1. deildarliðinu AGF í Árósum í vikutíma.

Frá þessu er greint á selfoss.org. Jón Daði, sem er 18 ára gamall, sýndi oft á tíðum frábæra takta með Selfyssingum í Pepsi-deildinni í sumar og var valinn efnilegasti leikmaður liðsins í lok tímabils.

Íslendingar eru ekki ókunnir AGF, eða Aarhus Gymnastikforening, því Fjölnismaðurinn Aron Jóhannsson er í þeirra röðum. Þá hafa Ólafur Kristjánsson, Kári Árnason, og Tómas Ingi Tómasson allir verið atvinnumenn hjá AGF. Eins var Guðlaugur Victor Pálsson u-21 ára landsliðsmaður hjá AGF áður en Liverpool keypti hann.