Jón Daði skoraði í sigurleik

Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson skoraði fyrra mark U21 árs landsliðs Íslands í knattspyrnu sem lagði Hvít-Rússa að velli, 1-2, í Minsk í dag.

Félagi Jóns frá Selfossi, Guðmundur Þórarinsson, var einnig í byrjunarliði Íslands.

Jón Daði skoraði glæsilegt mark eftir góða sókn strax á 4. mínútu leiksins og reyndist það eina markið í fyrri hálfleik.

Ísland komst í 0-2 í upphafi síðari hálfleiks með marki Emils Atlasonar en Hvít-Rússar klóruðu í bakkann á 73. mínútu með marki úr vítaspyrnu. Íslendingar léku manni færri síðustu tuttugu mínútur leiksins eftir að Sverrir Ingi Ingason fékk rauða spjaldið og bæði lið fengu færi til að bæta við mörkum og fór boltinn m.a. í markstangirnar á báðum endum vallarins.

Þetta var fyrsti leikur Íslands í riðlakeppni EM 2015.

Fyrri greinListi Dögunar tilbúinn
Næsta greinPétur ráðinn lánastjóri á Selfossi