Jón Daði skoraði í sigri Íslands

Selfyssingarnir Guðmundur Þórarinsson og Jón Daði Böðvarsson spiluðu báðir 90 mínútur í leik U21 árs liðs Íslands gegn Hvít-Rússum í Reykjavík í dag.

Íslenska liðið fór á kostum í leiknum, sigraði 4-1 og var Jón Daði meðal bestu leikmanna vallarins. Hann kom Íslandi í 2-0 á 35. mínútu með frábæru marki þegar hann lét vaða utan af hægri vængnum og lagði svo upp fjórða mark Íslands þegar fyrirgjöf frá honum rataði á kollinn á Emil Atlasyni, en Emil skoraði þrennu í leiknum.

Ísland er efst og taplaust í sínum riðli með 9 stig. Næsti leikur liðsins er gegn Kasakstan á Kópavogsvelli en sá leikur fer fram 10. september.

Fyrri greinStórum áfanga náð í Búðarhálsvirkjun
Næsta greinSkaftárhlaup yfirvofandi