Jón Daði skoraði, Guðmundur lagði upp mark

Selfyssingarnir Guðmundur Þórarinsson og Jón Daði Böðvarsson mættust í dag með liðum síðum, Sarpsborg 08 og Viking Stavanger, í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Leiknum lauk með 2-1 sigri Sarpsborg 08 og komu Selfyssingarnir báðir mikið við sögu.

Sarpsborg 08 komst yfir á 42. mínútu þegar Christian Brink skallaði boltann í netið eftir aukaspyrnu Guðmundar. Staðan 1-0 í leikhléi.

Strax upphafi síðari hálfleiks jafnaði Viking leikinn. Eftir hornspyrnu endaði boltinn hjá Jóni Daða sem skoraði af stuttu færi. Þetta var hans fyrsta mark fyrir félagið.

Leikmenn Sarpsborg 08 voru ekki lengi að endurheimta forystuna. Martin Wiig skoraði þá gott mark aðeins þremur mínútum eftir að Jón Daði jafnaði.

Mörkin urðu ekki fleiri og lokatölur því 2-1 fyrir Sarpsborg 08.

Guðmundur lék allan leikinn fyrir Sparsborg 08, en Jón Daði var tekinn af velli á 62. mínútu hjá Viking.

Tveir aðrir Íslendingar komu við sögu í leiknum, þeir Þórarinn Ingi Valdimarsson, leikmaður Sarpsborg 08, og Indriði Sigurðsson, leikmaður Viking.

Fyrri greinHáhyrningur í höfninni á Stokkseyri
Næsta greinVilhjálmur efstur hjá Flokki heimilanna