Jón Daði semur við Viking

Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson er búinn að samþykkja samningstilboð frá norska úrvalsdeildarliðinu Viking í Stavangri og heldur út í næstu viku til að skrifa undir.

„Ég er búinn að samþykkja tilboð Viking en á eftir að skrifa undir samninginn. Ég fer út næsta fimmtudag og eins og venjan er mun ég fara í læknisskoðun hjá félaginu áður en gengið er frá samningnum,“ sagði Jón Daði í samtali við sunnlenska.is.

Jón Daði var eftirsóttur af liðum í Skandinavíu en auk þess að heimsækja Viking þá fór hann á reynslu til Silkeborg í Danmörku og Djurgården í Svíþjóð. Þá hafði Start í Noregi sýnt Jóni Daða mikinn áhuga en af þeim félögum sem höfðu samband við hann leist honum best á Viking.

„Ég er mjög spenntur það er mjög spennandi og skemmtilegur tími framundan. Viking er topp klúbbur með mikinn metnað og góður staður til þess að byrja atvinnumannaferilinn,“ sagði Jón Daði ennfremur.

Jón Daði er annar leikmaður Selfoss sem fer í atvinnumennsku í Noregi á stuttum tíma en jafnaldri hans, Guðmundur Þórarinsson, skrifaði undir samning við Sarpsborg á dögunum og því verða þeir félagar andstæðingar í efstu deild í Noregi á komandi keppnistímabili.

Fyrri greinTungnamenn fá tvo miða á verði eins
Næsta greinÓvissustigi aflýst