Jón Daði samdi til þriggja ára

Knattspyrnumaðurinn stórefnilegi, Jón Daði Böðvarsson, skrifaði í gærkvöldi undir þriggja ára samning við Selfyssinga.

Jón Daði kom við sögu í flestum leikjum meistaraflokks í fyrra en hann er á 18. aldursári. Hann hefur verið fastamaður í liði Selfoss á undirbúningstímabilinu í ár og er líklegur til að láta mikið að sér kveða í Pepsideildinni.

Jón Daði er einn efnilegasti leikmaður landsins en hann er í æfingahóp U19 ára landsliðs Íslands og á að baki leiki með U18 ára liðinu.

Í samtali við sunnlenska.is sagðist Jón Daði mjög ánægður með samninginn við uppeldisfélag sitt og hann biði spenntur eftir því að fá að sanna sig í efstu deild.