Jón Daði og Viðar báðir í hóp

Selfyssingarnir Jón Daði Böðvarsson og Viðar Örn Kjartansson eru báðir í leikmannahópi íslenska landsliðsins í knattspyrnu sem mætir Kósóvó og Írlandi í leikjum í lok mars.

Leikurinn gegn Kósóvó sem er í undankeppni HM 2018 verður leikinn í Shkoder í Albaníu en leikurinn gegn Írlandi er vináttuleikur sem spilaður verður í Dublin.

Jón Daði hefur leikið 30 landsleiki og skorað í þeim tvö mörk. Hann hefur verið inn og út úr byrjunarliði Wolves í 1. deildinni á Englandi og ekki tekist að skora í deildinni síðan í ágúst.

Viðar Örn hefur leikið 13 landsleiki og skorað í þeim eitt mark. Hann hefur verið funheitur með liði sínu Maccabi Tel Aviv í ísraelsku úrvalsdeildinni og er markahæsti leikmaður deildarinnar.

Sparkspekingar eru á því að Selfyssingarnir geri tilkall til þess að vera saman í fremstu víglínu í byrjunarliðinu gegn Kósóvó en það hefur aldrei gerst áður. Sunnlenska.is styður að sjálfsögðu þá hugmynd.